Fréttir

3. fl. kk spilar bikarúrslitaleik á laugardag kl. 12.00 (ath. breyttan tíma!!)

Þriðji flokkur karla spilar til bikarúrslita nk. laugardag kl. 12.00 við KF/Tindastól á Ólafsfjarðarvelli. Upphaflega átti leikurinn að vera kl. 14, en honum hefur verið flýtt um tvo tíma og verður sem sagt spilaður kl. 12.00. Í undanúrslitum vann KA öruggan sigur á Þór og KF/Tindastóll hafði betur gegn Völsungum.

A-lið 4.fl. kvk spilar í úrslitakeppni KSÍ um helgina

A-lið 4. flokks kvenna í KA spilar um helgina þrjá leiki í öðrum tveggja riðla í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn í 4. flokki. Riðillinn verður spilaður á KA-velli og Akureyrarvelli. Auk KA spila í þessum riðli lið Tindastóls, Fjölnis og Breiðabliks 2.    

Þór/KA stelpum innilega fagnað í lokahófi yngri flokka

Hinum nýbökuðu Íslandsmeisturum í Þór/KA í knattspyrnu var vel og lengi fagnað í lokahófi yngri flokka í KA-heimilinu í dag, en stelpurnar mættu þar með bros á vör eftir gleðiríkan gærdag þegar Íslandsmeistaratitillinn var innsiglaður með mögnuðum sigri á Selfyssingum.

KA tók þrjú stig á Ásvöllum - stefnir í alvöru slag á Akureyrarvelli 15. september!

KA tók öll þrjú stigin úr viðureign sinni við Hauka á Ásvöllum í kvöld. Leiknum lauk með 0-2 sigri og skoruðu þeir Hallgrímur Mar Steingrímsson og Jóhann Helgason mörk KA í síðari hálfleik. Sem stendur er KA í þriðja sæti deildarinnar með 32 stig, þremur stigum á eftir Víkingi Ólafsvík sem á leik við ÍR til góða á heimavelli á laugardaginn. Næsti leikur KA verður hins vegar við téða Ólafsvíkurvíkinga á Akureyrarvelli annan laugardag, 15. september. Með sigri í þeim leik tryggja Víkingar sæti sitt í efstu deild, en sigur KA myndi þýða að síðasta umferðin yrði athyglisverð, en þá sækir KA Bí/Bolungarvík heim.

Þór/KA Íslandsmeistari í knattspyrnu 2012!

Sameiginlegt lið Þórs og KA í mfl. kvenna gerði sér lítið fyrir í kvöld og gjörsigraði Selfyssinga með níu mörkum gegn engu og sigldi Íslandsmeistaratitli í höfn - þeim fyrsta sem kvennalið á Akureyri vinnur. Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, tók við Íslandsbikarnum úr hendi Geirs Þorsteinssonar, formanns KSÍ, á Þórsvelli í kvöld við gríðarlegan fögnuð mikils fjölda Akureyringa sem lögðu leið sína á völlinn í kvöld til þess að hylla stelpurnar.

Haukar - KA í kvöld! I Beint á SportTV

Mikilvægasti leikur sumarsins til þessa fer fram í kvöld klukkan 18:00 þegar KA menn fara á Ásvelli og mæt heimamönnum í Haukum. Óli Jó og lærisveinar eru í 3 sæti deildarinna með 30 stig en KA í 5.sæti með 29 stig, 6 stigum frá 2.sæti þegar 3 umferðir eru eftir. Enþá er séns á að komast upp og því gefumst við KA menn ekki upp fyrr en sénsinn er 0%! Leikurinn hefst klukkan 18:00 og er í beinni á Sporttv.is fyrir okkur sem ekki komast en þeir sem geta mætt á völlinn, endilega fjölmennið og styðjið okkar menn til sigurs! ÁFRAM KA!

Þór/KA Íslandsmeistari 2012? 4.sept kl 18.00

Þriðjudagurinn 4. september getur komist í sögubækurnar hjá Akureyringum. Þá eigast við Þór/KA og Selfoss í meistaraflokki kvenna í knattspyrnu á Þórsvelli. Með sigri tryggir Þór/KA sér Íslandsmeistaratitilinn. Þetta yrði þá í fyrsta skipti sem Akureyringar fá Íslandsmeistara í meistaraflokki kvenna í fótbolta.

KA búið að vinna sér sæti í A-deild í 3. flokki karla

Með öruggum 8-0 sigri á ÍR á KA-vellinum í dag í B-deildinni í 3. flokki karla hefur KA nú unnið sér sæti í A-deildinni í 3. flokki á næsta ári. Þessi sigur í dag þýðir að KA verður aldrei neðar en í öðru sæti í B-deildinni þegar einn leikur er eftir - gegn Þrótti R á Akureyrarvelli nk. sunnudag. Víkingur R er hins vegar í efsta sæti í deildinni, stigi á undan KA, á eftir að spila gegn Breiðabliki 2 á mánudag. Efsta sætið í B-deild þýðir sæti í úrslitakeppni 3. fl. kk. Leikmönnum og þjálfurum 3. fl. kk eru sendar hamingjuóskir með frábært gengi í sumar og sæti í A-deild Íslandsmótsins næsta sumar.

KA-lið í úrslitakeppni KSÍ á mörgum vígstöðvum um helgina

Um helgina verður í mörg horn að líta hjá KA-liðum í úrslitakeppnum KSÍ. 5. flokkur kvenna spilar í A-liðum í Fellabæ, KA 2 spilar í B-liðum í Grindavík og 5. flokkur karla spilar í B-liðum á Smárahvammsvelli. Þá spilar KA2í 4. fl. kvk, sem lenti í öðru sæti í Norðurlandsriðli í A-liðum, við Hauka í dag á Ásvöllum í Hafnarfirð í umspilsleik um réttinn til að spila í úrslitakeppni kvenna. KA2 er í raun B-lið, þó svo að liðið hafi spilað í A-liða keppni í Norðurlandsriðli í sumar.

Úrslitakeppni 4. fl. kvk á KA-velli 7.-9. september

Annar tveggja riðla í úrslitakeppni 4. flokks kvenna verður spilaður á KA-vellinum 7.-9. september nk. Þau fjögur lið sem mæta til leiks eru KA, Tindastóll, Fjölnir og Breiðablik 2. Endanlegar tímasetningar leikjanna liggja ekki fyrir, en þó er ljóst að tveir leikir verða spilaðir á föstudag, tveir og laugardag og tveir á sunnudag.