Daði Jónsson snýr aftur heim!

Handbolti

Handknattleiksliði KA barst í dag gríðarlega góður liðsstyrkur þegar Daði Jónsson sneri aftur heim. Daði sem verður 26 ára síðar á árinu er uppalinn hjá okkur í KA og brennur svo sannarlega fyrir félagið. Hann hefur verið leiðandi í baráttunni bæði innan sem utan vallar og afar sterkt að fá hann aftur heim.

Daði steig sín fyrstu skref í meistaraflokki með sameiginlegu liði Akureyrar Handboltafélags tímabilið 2016-2017. Í kjölfarið var Daði í lykilhlutverki í uppbyggingu KA liðsins en Daði er ákaflega öflugur varnarmaður auk þess að vera duglegur að drífa liðsfélaga sína áfram. Það var því við hæfi að Daði tók við hlutverki fyrirliða KA liðsins.

Daði hefur leikið 87 leiki fyrir KA í deild og bikar og ætti hann því að rjúfa 100 leikja múrinn í vetur. Hann hélt á vit ævintýranna eftir leiktíðina 2020-2021 er hann flutti til Danmerkur. Hann snýr nú aftur heim og hlökkum við svo sannarlega til að sjá hann aftur í gulu og bláu treyjunni, velkominn heim Daði!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is