Rakel Sara snýr aftur í KA/Þór!

Handbolti
Rakel Sara snýr aftur í KA/Þór!
Velkomin heim!

Rakel Sara Elvarsdóttir er snúin aftur heim í KA/Þór og tekur því slaginn með liðinu í vetur. Þetta eru stórkostlegar fréttir en Rakel er einn besti hægri hornamaður landsins og klárt að endurkoma hennar mun styrkja lið okkar gríðarlega fyrir átök vetrarins.

Á síðustu leiktíð lék Rakel Sara með norska liðinu Volda en liðið lék í efstu deild Noregs sem er ein sterkasta deild heims og ljóst að hún mun búa að þeirri miklu reynslu.

Rakel Sara sem er tvítug er uppalin hjá KA/Þór en hún kom inn í meistaraflokk aðeins 15 ára gömul veturinn 2018-2019 og varð strax lykilmaður í liðinu. Hún var valin efnilegasti leikmaður Olísdeildar kvenna veturinn 2020-2021 þegar KA/Þór hampaði öllum titlum tímabilsins og stóð því uppi sem Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari auk þess að vera Meistari Meistaranna.

Á undanförnum árum hefur Rakel Sara verið valin í A-landslið Íslands en þar áður var hún í lykilhlutverki í yngrilandsliðum Íslands. Með yngrilandsliðunum hefur hún keppt bæði á EM og HM þar sem hún hefur verið valin í lið mótsins.

Við bjóðum Rakel Söru innilega velkomna heim og hlökkum svo sannarlega til að sjá hana aftur í KA-Heimilinu á laugardaginn þegar KA/Þór tekur á móti ÍBV í fyrstu umferð Olísdeildar kvenna.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is