Fréttir

4. flokkur karla: A-liðið leikur í úrslitakeppni á miðvikudag

Á morgun, miðvikudag, mætir A-lið 4. flokks Gróttu í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins. Leikurinn verður í KA-Heimilinu klukkan 18:30 og er fólk eindregið hvatt til þess að mæta. Strákarnir urðu fyrir stuttu deildarmeistarar og er núna komið að úrslitakeppninni.

4. flokkur kvenna í dag þriðjudag

B liðið spilar klukkan 16:30 í KA heimilinu gegn Stjörnunni úr Garðabæ. Þetta er síðasti leikur stelpnanna í deildarkeppninni í vetur. A liðið leikur svo strax á eftir eða klukkan 18:00.  Það er hins vegar umspilsleikur gegn Val um laust sæti í 8-liða úrslitum þannig að það er til mikils að vinna hjá stelpunum, hreinn úrslitaleikur.

Stórsigur hjá 4. flokki kvenna gegn Fram

Stelpurnar í 4. flokk spiluðu tvo leiki um helgina við Fram. Voru þessir leikir síðustu leikir liðsins í deildinni í vetur. Fyrri leikurinn fór rólega af stað og var jafnt á tölum fyrstu mínúturnar. Eftir það sigu KA stelpur fram úr og héldu öruggri forustu þó leikurinn héldi áfram að vera óttalega rólegur. Leikurinn endaði 25-15 KA í vil og einn rólegasti leikur tímabilsins staðreynd. Óttalegt andleysi var í stelpunum og þrátt fyrir tíu marka sigur léku þær langt undir getu, gerðu í raun einungis það sem þær þurftu.

Síðustu heimaleikir 4. flokks kvenna

4. flokkur kvenna spilar sína síðustu heimaleiki þetta árið á næstu dögum. A liðið spilar tvo gríðarlega mikilvæga leiki við Fram á föstudag klukkan 19:30 og síðan klukkan 11:00 á laugardaginn. Báðir leikirnir fara fram í Síðuskóla. KA þarf þrjú stig úr þessum tveimur leikjum til að tryggja sér sæti í umspilinu um laust sæti í 8 liða úrslitum og því ljóst að um mikilvæga leiki er að ræða. Því er um að gera að drífa sig í kaffi til Gunna Mall í Síðuskóla og hvetja stelpurnar áfram. B liðið á svo leik klukkan 16:30 í KA heimilinu næstkomandi þriðjudag. Þessum leik hefur tvívegis verið frestað þar sem að Stjarnan komst ekki. B liðið hefur verið að sækja í sig veðrið eftir áramót og unnið marga góða sigra.  Hafa þær fengið fjórtán stig úr níu leikjum og spilað glimrandi handbolta inn á milli. Því er um að gera að sjá stelpurnar spila í þessum síðasta heimaleik þeirra á tímabilinu.

Unglingaflokkur kvenna: Tveir sigrar á FH

Það var nóg að gera hjá leikmönnum Akureyrar og FH í unglingaflokki þegar liðin mættust tvívegis með u.þ.b. hálftíma stoppi á milli leikja. Þessari törn lauk þannig að Akureyri sigraði í báðum leikjunum, 20-15 og 22-19 og skiluðu stelpurnar fjórum stigum í hús. Með þessum stigum tryggðu stelpurnar þriðja sætið í deildinni en Fram stelpurnar sem sitja í 4. sætinu geta ekki náð Akureyrarliðinu. Þessi lið mætast svo í KA heimilinu á sunnudaginn klukkan 13:00 en það er einmitt síðasti leikur Akureyrarliðsins í deildarkeppninni á þessu tímabili.

KEA býður öllum á leik Akureyrar og HK á sunnudag

Það verður sannkallaður stórleikur í N1-deild karla á sunnudaginn þegar Akureyri fær HK í heimsókn. KEA hefur ákveðið að bjóða öllum á leikinn og því ástæða til að hvetja alla til að mæta á leikinn sem hefst klukkan 15:00 í KA heimilinu. Það ber jafnframt til tíðinda að sjónvarpið verður með beina útsendingu frá leiknum og því mikilvægt að Akureyringar sýni þjóðinni raunverulega heimaleikjastemmingu eins og hún getur best verið.

Nýtt vefsvæði handknattleiksdeildar

Velkomin á nýtt heimili handknattsleiksdeildar K.A. á vefnum. Eins og oft vill verða þegar nýjir hlutir eru teknir í notkun eru nokkrir hnökrar á síðunni. Við búumst við að allt verði komið í samt lag undir lok vikunnar. Við biðjumst velvirðingar á þessu.

4. flokkur karla: Tveir öruggir sigrar á Þór

4. flokkur karla lék við Þór á miðvikudagskvöld en bæði A og B lið áttust við í Síðuskóla. Segja má að KA hafi verið mun sterkara í báðum leikjunum og unnið örugga sigra. Í A-liðum vann KA 21-28 eftir að hafa verið 10-14 yfir í hálfleik. Í B-liðum vann KA 21-26 eftir að hafa leitt 10-14 í hálfleik. Í A-liðum er KA á toppi deildarinnar og með fæst töpuð stig. B liðið á góðan séns á að ná öðru sæti deildarinnar.

4. flokkur KA í handbolta leikur við Þór á miðvikudag

Á morgun, miðvikudag, fara fram hörkuleikir í 4. flokki karla. Þá verður Akureyrarslagur milli KA og Þór en leikirnir fara fram í Síðuskóla. A-liðin munu hefja leik klukkan 20:00 og B-liðin þar á eftir eða klukkan 21:00. Fólk er eindregið hvatt til að mæta á leikina og sjá unga handboltamenn í bænum. KA hefur unnið báða leikina í B-liðunum til þessa en í A-liðinum var jafntefli í fyrri leiknum og KA vann svo seinni leikinn.