Fyrsta heimatap ungmennaliðsins (myndaveisla)

Handbolti
Fyrsta heimatap ungmennaliðsins (myndaveisla)
Arnór Ísak fór fyrir KA U í dag (mynd: EBF)

Ungmennalið KA tók í dag á móti Gróttu í hörkuleik í Grill 66 deild karla. Strákarnir höfðu fyrir leikinn unnið alla þrjá heimaleiki sína í vetur og var stefnan klárlega sett á tvö stig gegn öflugu liði Seltirninga. Grótta er með töluvert breytt lið frá því í fyrra þegar liðið féll úr deild þeirra bestu og er liðið að koma sér betur og betur í gang.

KA liðið leiddi leikinn í upphafi og fór mikið fyrir framlagi þeirra Arnórs Ísaks og Þorra á vinstri kantinum en þeir gerðu til að mynda sjö af fyrstu 8 mörkum liðsins. Staðan var 8-7 fyrir okkar liði eftir rétt rúmar tíu mínútur þegar Sverre og Andri Snær tóku leikhlé en strákarnir höfðu verið að gera nokkuð mikið af mistökum og hefði forskotið því hæglega geta verið stærra.

Leikhléið skilaði þó ekki miklu, allavega ekki til að byrja með því gestirnir gerðu næstu fjögur mörk leiksins og komust í 8-11. Þá hinsvegar kviknaði vel á strákunum og þeir keyrðu yfir gestina auk þess sem að Svavar Ingi varði nokkra góða bolta í markinu.

Staðan var því skyndilega orðin 17-12 og rúmar fimm mínútur til hálfleiks. Á þessum kafla fengu Gróttumenn brottvísun sem strákarnir nýttu sér ákaflega vel og má svo sannarlega segja að strákarnir hafi verið betra liðið á vellinum.

En aftur fóru menn í þann pakka að vera full bráðir og gera klaufaleg mistök og gestirnir gengu á lagið. Þeir jöfnuðu metin í 18-18 sem voru hálfleikstölur og meðbyrinn þeirra megin fyrir síðari hálfleikinn.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Gróttumenn tóku svo frumkvæðið í síðari hálfleiknum og leiddu lengst af með 1-2 mörkum. Strákarnir gáfust aldrei upp og þeir jöfnuðu metin í nokkur skipti. Staðan var einmitt jöfn 28-28 þegar 13 mínútur lifðu leiks og leikurinn í járnum.

Þá kolféll spilamennska okkar liðs og strákarnir gerðu sig seka um ansi mörg mistök sem í raun gáfu gestunum sigurinn. Strákarnir skoruðu til að mynda ekki mark í rúmar sjö mínútur og staðan var orðin 30-38 undir lokin áður en strákunum tókst að laga stöðuna í 33-39 sem urðu lokatölur.

Gríðarlega svekkjandi niðurstaða enda voru strákarnir í lykilstöðu undir lok fyrri hálfleiks og virtust vera algjörlega með leikinn. Hinsvegar voru gestirnir í Gróttu miklu stöðugri og gerðu mun færri mistök sem á endanum kláraði leikinn fyrir þá. Fyrsta tapið á heimavelli í vetur staðreynd og klárt að strákarnir þurfa að fara vel yfir það sem fór úrskeiðis í dag.

Næsti leikur er svo leikurinn sem allir hafa beðið eftir en á föstudaginn sækja strákarnir Þórsara heim í Höllina kl. 19:30. Það má búast við svakalegum leik og hvetjum við að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta og styðja strákana í leiknum þar sem þeir hafa í raun allt að vinna!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is