Nóel Atli spilaði fyrsta leikinn fyrir Álaborg

Fótbolti

Nóel Atli Arnórsson lék sinn fyrsta byrjunarliðsleik með liði Álaborg í gær er Álaborg vann 4-3 sigur á Vendsyssel í toppslag í næstefstu deild í Danmörku. Er þetta afar flott skref hjá Nóel en hann er aðeins 17 ára gamall en með sigrinum fór Álaborg á topp deildarinnar.

Nóel sem er fastamaður í yngrilandsliðum Íslands hefur á undanförnum árum staðið sig frábærlega í akademíu Álaborgar og er heldur betur að koma sér inn í aðallið félagsins. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið í ágúst mánuði síðastliðnum er hann kom inn á sem varamaður í 8-0 sigri liðsins á Egen í danska bikarnum.

Nóel er sonur Arnórs Atlasonar sem gerði garðinn frægan með handknattleiksliði KA á sínum tíma og fór fyrir liði KA sem varð Bikarmeistari árið 2004 sem við rifjuðum upp hér á síðunni á dögunum. KA tengingin hjá þeim feðgum er ansi mikil en Nóel hefur flest sumur æft með KA.

Óskum okkar manni innilega til hamingju með áfangann og hlökkum svo sannarlega til að fylgjast áfram með framgöngu hans á næstu árum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is