Fréttir

Gunnlaugur: Stefnum á að vera með lið sem getur tekið næsta skref

KA endaði tímabilið í 8. sæti 1. deildar og er Gunnlaugur Jónsson þjálfari sáttur með seinni umferðina en KA var með þriðja besta árangur allra liða í seinni umferð. “Ég er mjög sáttur við stígandann í liðinu, í seinni umferðinni er liðið með þriðja besta árangur í deildinni, aðeins toppliðin tvö, ÍA og Selfoss, eru með betri árangur. Við byrjum mótið mjög vel en frá og með 4. umferð kom mikil lægð þar sem aðeins vannst einn sigur í 9 leikjum,” sagði Gunnlaugur í samtali við ka-sport.is.

Steingrímur Örn er í 100 leikja klúbbnum

Steingrímur Örn Eiðsson er næstur á dagskrá í 100 leikja klúbb félagsins en það má með sanni segja að hann hafi rétt slefað inní þennan góða klúbb. Steini er uppalinn á Ólafsfirði og lék með Leiftri áður en að hann gekk til liðs við KA, 4 Apríl 1997.

Getraunastarf KA hefst á ný - uppfært

Getraunastarf KA hefst á ný eftir sumarfrí. Fyrirkomulagið verður með öðru sniði en áður eða deildarkeppni þar sem allir þátttakendur mætast innbyrðis í einfaldri eða tvöfaldri umferð.

Haukur Heiðar í liði ársins

Haukur Heiðar Hauksson, fyrirliði KA, var valinn í lið ársins í 1. deild Íslandsmótsins á Fotbolti.net, en niðurstaða vefsíðunnar var kunngjörð síðdegis í dag.

2.fl: Tap gegn Þórsurum - KA í B deild

Lokatölur leiks Þórs og KA sem fram fór á Þórsvelli í dag voru 3 - 1 fyrir Þór. Þórsarar byrjuðu leikinn af krafti og komust í 2 - 0 í fyrri hálfleik og leiddu þannig fram að 70. mínútu. Þá minnkuðu KA-menn muninn 2 - 1. Mikil barátta var í okkar mönnum en þrátt fyrir það komust Þórsarar í 3 - 1 stuttu eftir mark okkar manna og þannig lyktaði leiknum. Með sigri eða jafntefli hefði KA tryggt sætið í A-deildinni á næsta ári. Hins vegar fór það ekki þannig í þetta skipti og leikur 2. flokkur KA því í B-deild á næsta ári.

2.fl: Alvöru KA/Þórs-slagur á Þórsvelli

Það verður örugglega ekkert gefið eftir á Þórsvelli kl. 17.00 á morgun, þriðjudag, þegar 2. flokkur Þórs og KA mætast í síðasta leik sumarsins í A-deild Íslandsmótsins. Og ekki nóg með að þetta verði Akureyrarslagur með öllu sem því fylgir, heldur verður þetta væntanlega hreinn úrslitaleikur um hvort liðið fellur úr A-deildinni niður í B-deild á næsta keppnistímabili.

Haukur Heiðar leikmaður ársins

Haukur Heiðar Hauksson var útnefndur leikmaður ársins hjá meistaraflokki KA í knattspyrnu í lokahófi félagsins á Hótel KEA í gærkvöld. Ómar Friðriksson var útnefndur efnilegasti leikmaðurinn.

Allt að smella á Akureyrarvelli! - Opið hús á morgun

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á Akureyrarvelli, heimavelli KA, núna í sumar. Þetta er loksins allt að smella, stúkan að verða klár og þökulagning í kringum völlin hafin. Nú er nánast búið að þekja gömlu hlaupabrautina, síðan verður þökulagt sunnan við völlinn á næstunni. Það er síðan von manna að hægt verði að færa völlinn seinna meir aðeins sunnar á nýtt gras og sömuleiðis aðeins vestar, nær stúkunni. Það mun bæði bæta aðstæður til knattspyrnuiðkunar og einnig yfirlit yfir völlinn úr stúkunni.

3.fl: KA bikarmeistari í 3. flokki kk!

KA-strákarnir í 3. flokki karla eru bikarmeistarar KSÍ fyrir Norður- og Austurland. Þeir sigruðu KF/Tindastól í frábærum úrslitaleik á Akureyrarvelli í kvöld með fjórum mörkum gegn tveimur.

Opið hús á Akureyrarvelli á laugardag og frítt á síðasta heimaleik KA

Eins og komið hefur fram hér á heimasíðunni í sumar og víðar hafa staðið yfir miklar framkvæmdir á Akureyrarvelli í sumar - þ.e. í stúku vallarins. Þessum framkvæmdum er ekki lokið - en þó er komin bærileg mynd á þær. Öllum sem vilja skoða breytta stúku Akureyrarvallar er hér með boðið að koma í stúkuna nk. laugardag, 17. september, kl. 11.00-12.15 og að því loknu er upplagt að setjast í stúkuna/brekkuna og hvetja KA-strákana til sigurs í síðasta leiknum í sumar gegn lærisveinum Guðjóns Þórðarsonar, BÍ/Bolungarvík. Veitingar verða í boði í stúkunni. Frítt verður á leikinn og er hér með skorað á alla stuðningsmenn KA að fjölmenna á leikinn og öskra strákana til sigurs.